Beint í efni

Gleðileg gjafasett.

Í ár fengum við útsaumslistamanninn James Merry til að myndskreyta hátíðlegu gjafasettin okkar. James er eflaust þekktastur fyrir verkefni sín með söngkonunni Björk síðastliðin 12 ár. Hann annast listræna stjórnun og hefur meðal annars séð um grímu- og búningahönnun. Auk þess hefur hann starfað með einstaklingum og stofnunum á borð við Iris Van Herpen, Tilda Swinton, Gucci og fleirum. „Ég lít fyrst og fremst á mig sem útsaumslistamann. Engu að síður nýti ég oft annars konar efnivið eða miðil við sköpunina, til dæmis málmsmíði, silfursmíði, grímugerð, myndskreytingu og stafræna hönnun.“

Við hönnun gjafakassanna sótti James innblástur í gróðurhús BIOEFFECT. Margslungið mynstrið fléttast út frá grænum röndunum í einkennismerki BIOEFFECT, teygir sig til allra átta og myndar margvísleg form sem vísa til byggplöntunnar og EGF prótínsins.

„Eftir heimsóknina í gróðurhúsið vissi ég að mig langaði til að skapa eitthvað yfirnáttúrulegt, en þó með sterka tengingu við vísindi. Ég vildi endurspegla byggplöntuna og myndmerki BIOEFFECT — bæði í bókstaflegri og afleiddri merkingu. Ég byrjaði á að viða að mér upplýsingum um EGF prótínið og heillaðist samstundis af uppbyggingu þess og birtingarmynd. Það minnti mig á borða og þræði, sem eðlilega höfðar til textíllistamanns. Verkin mín beinast gjarnan að breytingaferli þar sem ég reyni að fanga augnablik umbreytingar eða hamskipta. Ég ákvað að láta prótínþræðina teygja sig út frá myndmerkinu þar sem þeir umbreytast í silfurlit byggfræ. Þegar hugmyndin var komin niður á blað hófst ég handa við útsauminn. Ég gerði tilraunir með græna þræði og notaði silfurþráð í smáatriðin. Að lokum fæddist fullunnið verk.“

James kom fyrst til Íslands árið 2009 vegna vinnu sinnar með Björk og fór upp frá því að verja meiri og meiri tíma hér. „Fljótlega fór mér að líða eins og ég væri að koma heim þegar ég kom til Íslands. Ég ákvað þá að það væri tími til kominn að flytja hingað. Ég finn svo mikinn frið og gleði í íslensku náttúrunni að ég held ég muni aldrei vilja búa neins staðar annars staðar,“ segir James en heimili hans og vinnustofa er við Hafravatn.

Þegar kemur að húðumhirðu er James fyrstur manna til að viðurkenna að hann hefur ekki alltaf verið duglegur að hugsa vel um húðina en það hefur þó batnað síðan hann kom til Íslands. „Ég byrjaði að fara í sund á hverjum degi og húðumhirðan fléttaðist sjálfkrafa inn í þá rútínu. Ég vel venjulega vörur sem eru hreinar og innihalda eins fá innihaldsefni og mögulegt er – það er einmitt þess vegna sem ég er svo hrifinn af BIOEFFECT vörunum. EGF Serum húðdroparnir eru algjörlega óviðjafnanleg klassík en upp á síðkastið hef ég verið mjög hrifinn af EGF Essence. Það er alveg mögnuð vara, ég nota það sem andlitsvatn eftir að ég hef hreinsað húðina og það er svo mjúkur og dásamlegur grunnur fyrir önnur serum og rakakrem.”

Kynntu þér glæsilegu gjafasettin okkar sem eru myndskreytt af James Merry.

Hleð inn síðu...