Beint í efni

Kostir hugleiðslu.

Samstarf: BIOEFFECT x Tristan Gribbin, stofnandi Flow hugleiðsluapps.

Samstarf við frumkvöðul.

Sem fyrr viljum við hjá BIOEFFECT vera viðskiptavinum okkar hvatning til þess að bæta líðan, efla sjálfstraust og auka lífshamingju. Þess vegna hófum við samstarf við Tristan Gribbin, stofnanda Flow – hugleiðslutækni sem boðið er upp á í sýndarveruleika, snjallforriti, vefgátt og vinnustofum. Flow býður þér að hverfa inn í þitt eigið hugleiðsluathvarf á Íslandi í sýndarveruleikaheimi og umkringir þig með róandi hljóðum náttúrunnar og stórkostlegu myndefni úr íslenskri náttúru, sem hjálpar þér að losa spennu og auka einbeitingu.

Við bjóðum þér upp á hugleiðslutíma með leiðsögn, í samstarfi við Tristan og Flow teymið. Hugleiðslan fer fram á opinberum Instagram-reikningi BIOEFFECT næsta sunnudag. Fylgstu með okkur og taktu þátt!

Smelltu til að heimsækja Instagramið okkar.

Rætt við Tristan um hugleiðslu og vegferð Flow.

Við ræddum við Tristan og fengum að kynnast vegferð hennar sem stofnandi og eigandi fyrirtækis, sem og áralangri ástríðu hennar fyrir hugleiðslu. Hún sagði okkur líka frá öllum þeim góðu áhrifum sem hugleiðsla hefur á hugann, líkamann – og húðina!

Lestu áfram til að sjá allt viðtalið.

Frá Kaliforníu til Íslands.                                            

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér.

Ég ólst upp í Kaliforníu en fluttist til Íslands árið 1995 vegna þess að ég giftist Íslendingi. Ég á þrjár yndislegar dætur sem eru sterkar, magnaðar og sjálfstæðar ungar konur. Ég elska hugleiðslu og það er mér hjartans mál að allir í heiminum hafi aðgang að þeim miklu kostum sem hugleiðsla hefur.

Að muna drauma og skipuleggja daginn.

Hvernig er dæmigerður dagur hjá þér?

Þegar ég vakna á morgnana drekk ég stórt vatnsglas – eða tvö. Svo er ég með mína morgunrútínu. Það fer eftir því hve snemma ég vakna hve langan tíma morgunrútínan tekur en það eru alltaf nokkrir hlutir sem ég sleppi aldrei, eins og að hugleiða, liðka líkamann og skipuleggja daginn. Morgunrútínan snýst um að undirbúa hvern dag; ákveða hvað ég ætla mér þann daginn og að hafa sýn fyrir hann. Minn „besti dagur“ væri dagur sem ég hefði skipulagt af kostgæfni þannig að jafnvægi væri milli vinnu og einkalífs, svo ég hefði getað sinnt sjálfri mér þrátt fyrir annasaman vinnudag.

Ég reyni alltaf að vera komin snemma í háttinn á kvöldin, fyrir klukkan tíu. Það tekst ekki alltaf en mér líður alltaf vel þegar það tekst. Mér finnst líka gott að vakna snemma, í kringum sex og hafa þá nægan tíma fyrir morgunrútínuna.

Upprifjun drauma.

Annað sem ég reyni að gera er að muna það sem mig dreymir. Stundum eru draumarnir mjög áhugaverðir og mér finnst það heillandi staðreynd að fólk í viðskiptalífinu finnur oft lausnir á vandamálum á næturnar. Hugmyndin að Flow kviknaði klukkan fjögur að morgni. Það eru óteljandi sögur af fólki sem hefur fundið upp hluti á næturnar. Hvað sem því líður reyni ég að muna hvað mig dreymir þannig að ég skrifa í dagbók á morgnana.

Að sameina ástríðu og möguleika.

Hvernig endaðirðu í þessum geira?

Ég ákvað mjög ung að láta gott af mér leiða. Ég vissi ekki nákvæmlega hvernig en ég hef alltaf haft þetta í hugfast í öllu því sem ég hef gert í lífinu.

Árið 2000 fór ég á námskeið og kolféll fyrir hugleiðslu. Ég þráði ekkert heitar en að allir í mínu lífi fengju að upplifa sömu gleði. Tíu árum síðar varð ég viðurkenndur hugleiðslukennari og byrjaði að stýra hugleiðslutímum og -námskeiðum á Íslandi. Ég held að það sé þessi blanda, að dá hugleiðslu, vera með bakgrunn í sviðslistum og áhuga á listrænni tjáningu, og að vera á Íslandi – landi sem styður nýsköpun mjög vel – sem sé ástæða þess að ég fann mig í þessum geira. Ég er ekki viss um að þetta hefði endilega gerst annars staðar.

Að stofna fyrirtæki.

Hvernig hófst vegferð Flow?

Á ákveðnum tímapunkti í lífinu áttaði ég mig á að ég vildi vinna við eitthvað sem ég hefði ástríðu fyrir, ekki bara til þess að afla tekna. Ég vildi að líf mitt yrði í flæði þar sem allt sem ég gerði hefði sama tilgang. Ég vissi ekki þá hvernig ég myndi gera þetta en ég vissi að það sem ég nýt mest af öllu að gera, fyrir utan að vera mamma, er að stjórna hugleiðslu. Ég ákvað því að einbeita mér að því.

Hvers vegna Ísland?

Ég komst að því að Ísland væri frábær staður til að láta þennan draum rætast því það er mikil nýsköpun á Íslandi. Þegar ég hafði ákveðið að stofna Flow fann ég að allar dyr opnuðust fyrir mér og ég lenti alls staðar á grænu ljósi. Strax í byrjun fór ég að vinna með fyrirtækjum og upp úr því kom tæknin og leiðir til að þróa nauðsynleg verkfæri. Ég held að þetta hafi tekist vegna þess að Ísland er svo lítið og samheldið samfélag. Þegar ég hleypti Flow af stokkunum og stóð uppi á sviði sat forseti Íslands í fremstu röð með öllum forstjórunum, svo dæmi sé nefnt. Það var eins konar stökkpallur.

Hefurðu einhver ráð fyrir þau sem eru að stofna fyrirtæki?

Mitt helsta ráð væri að gera eitthvað sem þú hefur ástríðu fyrir. Það þarf mikla þrautseigju til að stofna fyrirtæki svo það þarf að vera eitthvað sem þú ert til í að setja alla þína orku í, að minnsta kosti næstu tíu árin. Ef það hugnast þér ekki er betra að velja eitthvað annað. Það lærði ég af reynslunni. Fyrsta fyrirtækið sem ég stofnaði var á sviði sjálfbærrar tísku og ég var mjög spennt fyrir því og vissi að það væri þörf fyrir slíkt, en jafnvel þá hafði ég mestan áhuga á hugleiðslu. Ég lokaði því fyrirtæki eftir þrjú ár, sem var mjög sárt. Þegar ég stofnaði Flow vissi ég að ég myndi vinna við hugleiðslu næstu tíu ár ævinnar og sennilega lengur. Þar hafði ég drifkraftinn. Svo ég held að það sé mjög mikilvægt að gera eitthvað sem á virkilega vel við þig en uppfyllir um leið raunverulega þörf annarra. Ef þú hefur hvort tveggja geturðu skapað sjálfbært fyrirtæki.

Fjölmargir kostir hugleiðslu.

Hverjir eru helstu kostirnir að þínu mati?

  • Aukin jákvæð orka
  • Að losna við streitu eða neikvæðar hugsanir og finna hvatningu
  • Að komast í og nýta skapandi flæði
  • Að auka sjálfstraust og persónulega valdeflingu
  • Betri tenging og samskipti við fólk
  • Aukin einbeiting
  • Að finna leiðir til að leysa ákveðin vandamál
  • Meiri samúð, sjálfsást og sjálfsumhyggja
  • Að verða sveigjanlegri í núinu, framhleypnari og óþvingaðri
  • Að vera meira til staðar í núinu – sem yfirfærist einnig á líkamann!

Hvað gerir hugleiðsla fyrir huga og líkama?

Hún róar hugann gagnvart fjölda truflana sem við verðum fyrir yfir daginn. Ef maður temur hugann verður auðveldara að hugsa um líkamann og sýna honum meiri ástúð. En það er einnig líkamlegur þáttur í hugleiðslu; þegar maður hugleiðir verður breyting á heilanum, sem er jú hluti af líkamanum, ekki satt? Það hefur verið vísindalega sannað að þeir hlutar heilans stækka sem hafa með hluttekningu að gera og tengja þig við sjálfið og aðra. Svo hugleiðsla gerir þér kleift að rækta og bókstaflega stækka heilann – sem er ótrúlegt.

Svo er það húðin, það er nokkuð sem hefur heillað mig. Andlitið endurspeglar innra ástand. Það sést þegar þú hefur minni áhyggjur og býrð yfir meiri gleði. Það þarf fleiri vöðva og meiri orku til að yggla sig en að brosa, sem þýðir að bros er eðlilegra og afslappaðra ástand. Hugleiðsla er aðferð til að koma þér aftur í eðlilegt ástand og húðin endurspeglar það. Það er magnað að sjá raunverulegar breytingar á andliti fólks, næstum eins og það hafi minni áhyggjuhrukkur – þetta er eins konar andlitslyfting!

Hefurðu tekið eftir auknum áhuga á hugleiðslu?

Það hafa orðið stórkostlegar breytingar því hugleiðsla er orðin mjög vinsæl og sífellt fleiri átta sig á nauðsyn hennar. Það er svo mikið um streitu og kulnun. Þrátt fyrir aukinn áhuga er þó enn mikil andstaða gegn henni því fólk telur að hugleiðsla sé erfið. Þess vegna stofnuðum við Flow, til að gera hana auðveldari.

Hvaða ávinning hafa fyrirtæki af hugleiðslu fyrir starfsfólk?

Hugleiðsla getur hjálpað fólki að sofa betur, öðlast jákvæðara hugarfar, ná markmiðum sínum, auka framleiðni, bæta líðan og auka orku. Fyrirtæki hafa því hag af því að veita starfsfólki rými og verkfæri til þess að hugleiða, því það fækkar veikindadögum og eykur framleiðni. Það er bara staðreynd. Þegar fyrirtæki veita starfsfólki sínu aðgang að verkfærum til að bæta líðan eru kostirnir óumdeildir. Það að styðja hugleiðslu í vinnunni er frábær leið til að koma í veg fyrir kulnun og auka andlega vellíðan. Það sýnir starfsfólkinu vilja og umhyggju, að það séu verkfæri í boði og að fyrirtæki hafi fyrir því að greiða aðgang að þeim. Þetta mun skipta næstu kynslóð miklu máli því hún er miklu meðvitaðri um áhrif streitu. Z-kynslóðin mun eflaust krefjast þessa í vinnunni.

Hugleiðsla fyrir þig!

Við þökkum Tristan fyrir ánægjulegt spjall og gjöfult samstarf. Við óskum henni góðs gengis í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Sem fyrr fyllir það okkur þakklæti að hitta konur sem láta til sín taka í nýsköpun og viðskiptum. Það hvetur okkur á okkar eigin vegferð, enda leitum við stöðugt leiða til að bæta okkur.

Í samstarfi við Tristan og Flow bjóðum við fylgjendum okkar að taka þátt í hugleiðslu undir leiðsögn. Hugleiðslan er liður á vegferð okkar til að hvetja sem flesta til að huga að sjálfinu og auka vellíðan.

Fylgdu okkur og vertu með!

Við birtum hugleiðsluna á sunnudaginn. Fylgdu okkur á Instagram og taktu þátt!

Hleð inn síðu...